Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk eru meiri en hin fyrri.  Opinberunarbókin 2:19 


Hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir10.12.2014 22:11

Yngjast upp sem örninn

Árið 2014 er ár umskipta.  
Íslenska þjóðin og söfnuður Guðs hafa verið að fara í gegnum mikil umskipti.  Það er alltaf frekar óþægilegt og erfitt að fara í gegnum miklar umskipti og breytingar.  Ég ætla að tala um það hversu mikilvægt það er að standa stöðugur í gegnum umskipti og breytingar uns við fáum gegnumbrot.
Íslenska þjóðin fékk sitt sjálfstæði sem þjóð árið 1944. 17 júní síðastliðinn héldum við upp á 70 ára afmæli Íslenska lýðveldisins, til hamingju með það íslendingar.  Það er einnig merkilegt að Ísraelska þjóðin fékk sitt sjálfstæði fjórum árum síðar og var það fulltrúi frá Íslensku þjóðinni sem hafði áhrif á það að svo myndi verða.  Þetta inniheldur miklu meira en marga grunar.  

 Í 24 kafla Matteusarguðspjalls 32-35 segir svo; Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér að sumar er í nánd. 33Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. 34Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram. 35Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.  

Í þessum versum  er verið að tala um stofnun Ísraelsríkis sem líkingu við fíkjuviðartré sem að springur út og að sú kynslóð þegar það gerist muni ekki líða undir lok uns allt er komið fram.
Orð Guðs kennir okkur að meðal mannsaldur er um 70 ár þó svo að sumir lifi styttra og aðrir lengri lífdaga.
70 ár er einnig sá árafjöldi sem Guð starfar og vinnur með þjóðir og er talan 70 jafnframt tala endurreisnar samanber það er Guð var að eiga við ísraelsku þjóðina er hún var herleidd til Babílon vegna óhlýðni sinnar.  Ísraelska þjóðin var í 70 ár í herleiðingu í Babýlon og snéri svo aftur í þremur áföngum aftur til fyrirheitna landsins og þá hófst endurreisn múra Jerúslaem og musterisins. Þetta er táknrænt fyrir okkur í dag þar sem Guð hefur gefið okkur fyrirheit um það að hann muni fullkomna það verk í okkur sem hann hefur hafið í okkur allt til dags endurkomu sinnar og að hannn muni endurreisa alla hluti áður en hann kemur aftur. Við erum að ganga inn í þennan tíma sem þjóð og sem söfnuður Guðs.

Margir spádómar hafa verið talaðir út að íslenska þjóðin muni vera sem fyrirmynd eða módel  fyrir aðrar þjóðir og fyrir það sem Guð er að gera og héðan muni skýna ljós til að lýsa öðrum þjóðum.  Við vitum öll hver er hið sanna ljós er það ekki? Jú það er Drottinn okkar Jesú Kristur. Það hefur einnig verið talað út að vakning verði meðal unga fólksins og að frá þessari þjóð munu verða sendir út margir trúboðar til annara þjóða til að boða fagnaðarerindið og margir munu sinna hjálpar og upp byggingarstarfi. Þetta sem ég nefni er aðeins brot af því sem hefur verið talað út sem fyrirheit fyrir Ísland og margt meira væri hægt að nefna.

Það segir í Biblíunni að sælla sé að gefa en að þiggja. Við  erum kölluð til þess að erfa blessunina í Jesú kristi og blessa út frá okkur.Þegar við blessum aðra þá kemur velþóknun Guðs yfir okkar líf, það er ekki hægt að upplifa neitt betra en að finna elsku og velþóknun Guðs yfir lífi sínu.  Er við framkvæmum það orð sem Guð hefur boðið okkur að gera þá erum við blessuð. Eitt af því sem orð Guðs bíður okkur að gera er að biðja fyrir Ísrael og biðja Jerúsalem friðar. Þeir sem það munu gjöra hljóta blessun frá Guði.  Við þurfum ekki endilega að skilja allt í smá atriðum sem Guð bíður okkur að gera, heldur einfallega stíga út á vatnið í trú og gjöra það og við hljótum blessun. 

Ég lít svo á að vegna þess að Íslenska þjóðin hafði svo stóran þátt í því að Ísrael fékk sitt sjálfstæði sem þjóð þá er ég þess fullviss að það eigi stóran þátt í þeirri velmegun sem hefur verið á Íslandi núna í nær 70 ár. Við erum blessuð þjóð á margan hátt þrátt fyrir margt sem er í gangi sem er miður. Við getum verið þakklát fyrir svo margt. Stöndum áfram vörð um rétt gildi, Kristin gildi, tölum út blessun yfir þjóð okkar.  Játum út fyrirheit Guðs yfir þjóð okkar. Sjáðu til, Guð starfar í gegnum bænir okkar og hann dvelur í okkar lofgjörð og þakkargjörð. 
Er við játum það út sem er samkvæmt orði og vilja Guðs,þá hefur það áhrif til góðs. Tölum og biðjum það út sem Guð sýnir okkur í sínu orði og það mun uppfyllast í okkar lífi og annarra. 

Það er enginn spurning við erum á tímamótum, það eru þáttaskil. Það eru nýir tímar framundan á dagatali Guðs fyrir kirkju Guðs á Íslandi. Tími vakningar og endurreisnar. Spurningin er bara sú ætlum við að vera með í því verki sem Guð er að framkvæma.

Í byrjun þessa árs þá var ég á bænastund með nokkrum trú systkinum. Á bænastundinni sá ég sýn, ég sá örn sem var fjaðra laus og ég vissi um leið að örninn táknaði kirkjuna á Íslandi. Guð er að yngja kirkjuna upp á Íslandi sem örninn.  Kirkjan hefur verið andlega talað verið sem fjaðralaus, en núna er Guð að láta nýjar fjaðrir vaxa á örninn. Guð er að endurnýja og endurreisa kirkju sína á endatímanum.  Örninn er einnig tákn mynd af Heilögum anda Guðs eins og dúfan.  Samanber þá bar Guð Ísraelsmenn á arnarvængjum sínum í gegnum eyðimörkina til fyrirheitna landsins. Þeir voru 40 ár í eyðimörkinni Heilagur Andi kom yfir Jesú í dúfu formi er hann skírðist niðurdýfingarskírn og andinn leiddi hann út í eyðimörkina í 40 daga (talan 40 er tala reynslu). 

Eins og ég sagði áðan þá sá ég í sýninni að örninn gat ekki flogið og þetta er ástand sem er búið að vera í kirkjunni.  Það er búin að vera mikil reynsla á kirkjunni og andlegur þurrkur.  Ég sá í sýninni að það voru byrjaðar að koma nýjar fjaðrir á örninn. Örninn er oft heimfærður einnig fyrir þetta spámannlega í söfnuði Guðs.  Nýjar fjaðrir = nýjar ferskar opinberanir og flæði í anda Guðs. Þær opinberanir sem Guð gefur eru alltaf samkvæmt rituðu orði hans.

Þegar örninn yngist upp í því náttúrulega þá missir hann gogginn, klærnar og fjaðrirnar.  Þetta gerist oftast er örninn er orðinn 30 - 40 ára gamall, en stundum þó sjaldan er hann nær 50 ára aldri. Á þessu tímapunkti rétt áður en hann fer í þetta ferli að yngjast upp  þá á örninn mjög erfitt með að krækja klónum í bráðina. Klærnar verða sljóar og bognar. Fjaðrirnar verða þykkar og þungar og þrýstast að búknum þannig að örninn á erfitt með að fljúga. Örninn flýgur þá efst upp á fjallstind þar sem hann í fimm mánuði byrjar að losa sig við gogginn með því að berja goggnum við stein.  Er goggurinn grær aftur tekur örninn klærnar af og reytir síðan af sér fjaðrirnar. Ef að örninn myndi ekki gera þetta þá myndi hann deyja úr hungri þar sem hann getur ekki lengur veitt sér til matar.  Örninn hefur þá einungis þann valkost að deyja eða taka þessa ákvörðun að yngja sig upp. Þetta er mjög sársaukafullt ferli.  Örninn er háður því að aðrir ernir fæði hann eða að hann geti einungis nærst á vatni. Stundum kemur það fyrir að örninn deyr í þessum umskiptum. 
Þegar örninn hefur fengið nýjan gogg, klær og fjaðrir þá getur hann lifað önnur 30 - 40 ár.  Örninn getur því náð 70 ára aldri og stundum allt að 100 ára aldri. 

Orð Guðs kennir okkur að til að hægt sé að endurbyggja þurfi að rífa fyrst niður.

Jeremía 1:10 
Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja."

Guð vill að við endurnýjumst í anda og hugsun. Guð hefur verið að hreinsa kirkjuna, það eru umskipti.  Við erum í þessu ferli að deyja andlega eða að taka ákvörðun um að deyja holdi okkar og leyfa Guði að endurnýja okkur. Þetta gerist í bæninni með Guði er við drögum okkur í hlé eins og örninn er hann yngist upp. Guð er að leggja áherslu á bænina, lofgjörðina og samfélagið við sig núna meira en nokkru sinni fyrr og ekki að ástæðu lausu.  Án náins samfélags við Guð getum við ekki til fulls tekið stöðu okkar.

Er nýr goggur, klær, og fjaðrir koma þá endurnýjumst við og fáum nýjar ferskar opinberanir í Guði og kraft til að fljúga hærra en nokkru sinni fyrr í flæði Guðs og dýrð.

Sálmur 103: Vers 1-5
Lofa þú Drottin, sála mín, 
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín, 
og gleym eigi neinum velgjörðum hans. 
3Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, 
læknar öll þín mein, 
4leysir líf þitt frá gröfinni, 
krýnir þig náð og miskunn. 
5Hann mettar þig gæðum, 
þú yngist upp sem örninn.
6Drottinn fremur réttlæti 
og veitir rétt öllum kúguðum. 

Lykillin að þessum fyrirheitum sem nefnd eru þarna í Sálminum er númer eitt að lofa Guð. Davíð talaði til sálu sinnar á erfiðum tímum og sagði henni að lofa Guð.  Annað atriðið er að gleyma ekki velgjörðum Drottins. Er við gerum þetta tvennt að lofa Guð og minnast velgjörða hans þá fæðast fram fyrirheiti Guðs sem eru;

1. Velgjörðir.
2. Fyrirgefur allar misgjörðir.
3. Læknar öll þín mein.
4. Leysir líf þitt frá gröfinni.
5. Krýnir þig náð og miskunn.
6. Mettar þig gæðum.
7. Þú yngist upp sem örninn.
8. Drottinn fremur réttlæti 
og veitir rétt öllum kúguðum. 

Margir hafa í gegnum þessi umskipti orðið þreyttir og hafa gefist upp, eða sofnað á göngunni með Guði. Núna er tími inni hjá Guði, tími endurnýjungar og nýtt tækifæri fyrir þá sem að hafa horfið frá að snúa sér aftur til Drottins.  Í dag er hagkvæm tíð, í dag er hjálpræðisdagur.

Jesaja 40:28-31
Veistu ekki eða hefur þú ekki heyrt
að Drottinn er eilífur Guð
sem skapaði endimörk jarðar?
Hann þreytist ekki, hann lýist ekki,
viska hans er órannsakanleg.
29Hann veitir kraft hinum þreytta
og þróttlausum eykur hann mátt.
30Ungirmenn þreytast og lýjast,
æskumenn hnjóta og falla
31en þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft,
þeir fljúga upp á vængjum sem ernir,
þeir hlaupa og lýjast ekki,
þeir ganga og þreytast ekki.

Það er mikilvægt að við stöndum stöðug í trúnni núna uns gegnumbrotið verður sem Guð er að koma með.  Er við vonum á Drottinn þá fáum við nýjan kraft. Það að vona á Guð er eins og að vera fléttaður fast saman með Guði. 

Það er engin tilviljun að það sé eldgos í Bárðarbungu núna.  Manns nafnið Bárður þýðir að berjast í gegn.  Núna þurfum við á styrk frá Drottni til að halda út og berjast í gegn uns gegnumbrotið kemur.

Efesusarbréfið 6:10-20 
Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.
13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.
16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.
20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.


Við styrkjumst í Drottni og í krafti hans og klæðumst herklæðunum eins og ég las áðan með bæn og beiðni og með því að biðja á hverri tíð í anda. Takið eftir á hverri tíð, biðja í anda á hverri tíð. Þetta er eina leiðin til þess að geta veitt mótstöðu og halda velli þegar við höfum sigrað allt.

Ég hef fundið hvað baráttan hefur verið mikil undanfarið og hversu mikilvægt er að standa sterkur í Drottni og í krafti máttar hans. Í Efesusarbréfinu er talað fjórum sinnum um það að  standa.  Eitt atriði fyrir hvern arm krossins. Herklæðin og styrkinn fáum við fyrir krossdauða Jesú Krists og upprisu.
Í dag er mikilvægt að standa stöðugur í andanum og í trúnni meira en nokkru sinni fyrr.  Djöfullinn veit að hann hefur nauman tíma vegna endurreysnarinnar og gegnumbrotsins sem Guð er að koma með fyrir kirkju sína og fyrir þetta land. Hann reynir allt til að draga úr okkur og fella okkur.

Sakaría3:1-10
Þessu næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest. Hann stóð frammi fyrir engli Drottins en á hægri hönd honum Satan til að flytja kæru sína gegn honum. 2En Drottinn mælti til Satans: "Drottinn ávíti þig, ákærandi. Er þessi maður ekki sem brandur úrbáli dreginn?" 3En Jósúa var í óhreinum klæðum þar sem hann stóð andspænis englinum. 4Engillinn tók þá til máls og sagði við þá sem stóðu frammi fyrir honum: "Færið hann úr þessum óhreinu klæðum." Síðan sagði hann við Jósúa: "Sjá, ég nem burt sök þína og læt færa þig í skrúða." 5Og hann sagði: "Látið hreina ennisspöng á höfuð hans." Þeir létu þá hreina ennisspöng á höfuð hans og færðu hann í skrúðann. Og engill Drottins stóð hjá. 6Og engill Drottins ávarpaði Jósúa með þessum orðum: 7
Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og heldur boðorð mín skaltu einnig stjórna húsi mínu og gæta forgarða þess og ég heimila þér að samneyta þessum þjónum mínum.

Þessi vers eru um það er Ísraelsmenn voru að snúa aftur til baka til fyrirheitna landsins eftir 70 ára herleiðingu til Babýlon. Í fljótu bragði virðist sem Jósúa sé í ósigri, hann var í óhreinum klæðum og Satan að ákæra hann. Hann var ekki í ósigri heldur var hann að koma úr mikilli eldraun.  Takið eftir því að Jósúa stóð frammi fyrir engli Guðs, hann stóð er satan ákærði hann.  Þessi vers er hægt að heimfæra upp á það ferli sem kirkjan hefur verið að ganga í gegnum.  Guð hastar á Satan og gefur Jósúa ný klæði og vald til að ríkja að því að hann gekk á hans vegum. Þessi nýju klæði er líka hægt að heimfæra upp á nýju fjaðrirnar sem örninn fær er hann yngist upp. Guð er að undirbúa okkur fyrir nýja úthellingu áður en endatíma uppskeran verður tekin inn. Guð er að yngja upp örninn, kirkju sína.  Það er erfitt að fara í gegnum ferli umskipta.  Það tekur mikið á að fara í gegnum ferli umskipta, fólk verður ringlað og sumir gefast upp. Þeir sem halda út munu uppskera samkvæmt því.
Fyrir þá sem hafa farið frá eða gefist upp er enn tími að snúa við.

Við sjáum einnig að nýir forstöðumenn og leiðtogar hafa verið að taka við í kirkjunum sem er að hinu góða og hluti af áætlun Guðs að vakning verði á meðal unga fólksins. Nýju klæðin standa einnig fyrir úthellingu bænar og líknar anda og þá smurningu sem Guð gefur í endurreisninni. Þessi klæði eru postulleg og spámannleg klæði sem Guð er að gefa kirkju sinni á okkar dögum.

Í Biblíunni erum við hvött til að standa og ef við föllum að rísa aftur upp. 
Standast freistingar
Standa í gegn synd
Standa í gegn djöflinum
Standa á fyrirheitum Guðs
Standa sem varðmenn í skarðinu og á múrunum landinu til varnar

Gott dæmi um það hvernig Guð berst fyrir okkur er við stöndum stöðug í Guði er þegar Móse var með þjóð sinni við Rauðahafið og her farós var á eftir þeim. 

2 Mósebók 14:13-14 
Móse svaraði fólkinu: "Óttist ekki. Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur í dag því að þið munuð aldrei framar sjá Egypta eins og þið munuð sjá þá í dag. 14Drottinn mun sjálfur berjast fyrir ykkur en þið skuluð ekkert að hafast."


Að lokum vil ég tala til þeirra sem hafa gefist upp og hafa jafnvel fjarlægst Guð, þú hefur jafnvel fallið í synd og ert í ósigri. Við þig vil ég segja það er enn sérstakur náðartími fyrir þig í dag til að snúa aftur við til Drottins.

Ég fann það svo sterkt á hjarta mínu að ég ætti að tala þessa hvatningu út til þín er ég var að taka saman þetta orð að það er enn tími til þess að snúa sér við til Drottins og vera með í því sem Guð er og ætlar að gera. Komdu til Drottins á ný og hann mun gefa þér nýjan kraft. Hann mun mæta þér og endurnýja þig til samfélags við sig á ný. Þú munt fá að upplifa það sem þú hefur ekki órað fyrir að þú myndir fá að upplifa.  Ekki bíða með þetta, taktu ákvörðun núna, ákallaðu nafn Drottins,ekki bíða með það gerðu það núna strax. Segðu við Guð upphátt taktu við mér á ný og Guð mun taka við þér. Þú munt fá nýjan kraft og endurnýjast og fljúga með okkur hinum á vængjum arnarins hærra í dýrð Guðs en nokkru sinni fyrr.

Guð er að leita að fólki til að skipa sér í skarðið landinu til varnar, ég og þú getum valið að vera þetta fólk.

Drottinn blessi ykkur.
  Bænahúsið | Stangarhylur 7 | 110 Reykjavík | baenahusid@baenahusid.is  
  Banki: 0116-05-063995 | kt. 460406-1370