Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk eru meiri en hin fyrri.  Opinberunarbókin 2:19 


Hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir17.08.2014 21:26

Bæn og lofgjörð dag og nótt

Kolbeinn Sigurðsson, predikun 17. ágúst 2014

 

I.      Líf okkar með Kristi á að vera lofgjörð dag og nótt

 

Hebr. 13:15-16. 

Fyrir hann skulum vér án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.  En gleymið ekki velgjörðarseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði velþóknanlegar.

 

Guð lítur á allt líferni okkar þegar hann er að leita af sönnum tilbiðjanda.  Lofgjörð og tilbeiðsla er ekki bara að lofa Guð í kirkju heldur á það að vera allt sem þú gerir.  Lofgjörð er ekki bara það sem kemur af vörum okkar, lofgjörðin þarf líka að koma frá hjarta okkar og endurspeglast í verkum okkar.

 

Matt. 15:8-9. 

Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.  Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.

 

Til þess að jafnvægi og blessun sé viðvarandi í lífum okkar eigum við að setja Guð í fyrsta sæti í lífi okkar, síðan fjölskyldan okkar í öðru sæti og í þriðja sæti er þjónusta okkar í Guðsríkinu.  Leita fyrst Guðs og þá mun allt annað raðast upp á réttan hátt í lífum okkar. 

 

Eða eins og Rómverjabréfið tólfti kafli og í versi eitt segir á svo frábæran hátt:

....bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.  Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. 

 

Með daglegu samfélagi við Drottinn í orðinu, bæninni og í lofgjörð byggjumst við upp í hinni helgustu trú og verðum lifandi steinar í byggingu Guðs.  Við erum konunglegir prestar Drottins sem erum hluti af Guðsríkinu.  Þegar við erum í slíkri lofgjörð til Guðs skiptir hver einasti steinn í byggingu Guðs okkur máli og við þráum að gefa af okkur til annara það sem við höfum eignast.  Þegar við lifum í Kristi og líf okkar er stöðug lofgjörð, þ.e.a.s. allt líf okkar er Guði til dýrðar, þá eigum við vald sem Satan óvinur sálna okkar fær ekki staðist gegn.  Okkar öfluga leynivopn er lofgjörð til nafnsins sem er öllum nöfnum æðra og það er Jesú nafn.  Þegar við upphefum nafn Drottins erum við ósigrandi og sérhvert vald Satans er brotið.

 

Post. 2:42

Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.

 

Frumkirkjan hafði þessi fjögur atriði hér í versinu að ofan í hávegum í formum sínum.  Þetta var burðargrindin í hinu kristna samfélagi frumkirkjunnar og síðan var það heilagur Andi sem tengdi allt saman og gaf eldinn og lífið í samfélag trúaðra.  Gríska orð sem notað er fyrir bænirnar er "pros-yoo-khay'" og það þýðir bæn og lofgjörð til Guðs í einlægni með grátbeiðni.  

 

Auðmjúk trúarbæn er lykillinn af hjarta Guðs og slík bæn í samhljómi við orðið hrærir við hjarta Guðs.  Hjartað í bæninni er æðsta boðorðið og kristniboðsskipunin.  Æðsta boðorðið er að elska Guð á róttækan hátt og náungann eins og sjálfan sig, og kristniboðsskipunin er að boða fagnaðarerindið og gera allar þjóðir að lærisveinum Krists. 

 

Það er ekki hægt að lifa endalaust á sömu blessunum eða opinberunum frá Guði, en ritningarnar kalla það gamla vínið sem aðeins er hægt að setja á gamla vínbelgi.  Gamall vínbelgur er mótaður og fullstrekktur belgur sem heldur ekki nýju víni sem er fullt af lífi vegna þess að það þenur út vínbelginn með því að gerjast.  Vínin er mynd fyrir heilagan Anda sem kemur með lifandi og skapandi verk Guðs inn í líf okkar.  Við þurfum nýjan vínbelg til þess að fá nýtt vín.  Nýi vínbelgurinn er að lifa fórnandi lífi fyrir Krist og krossfesta holdið.  Sá lífstíll er módel Guðs og við eigum að gera vilja Guðs á róttækan hátt meðan við erum á jörðinni eftir fyrirmynd þess sem er á himni.  Okkar hlutverk er að undirbúa hjarta okkar sem altari og gefa líf okkar sem lifandi fórn Guði.  Til þess að verða lifandi fórn þá þarf blóð að renna, en þegar við iðrumst kemur blóð Jesú með hreinsandi kraft og einnig talar ritningin um að við eigum að standa gegn syndinni svo að blóð renni.  Til forna þurftu menn að slátra dýrinu og flá af því skinnið til þess að gera nýjan vínbelg, sem sagt blóði var úthellt.  Þegar Guð sér nýjan vínbelg í lífum okkar mun hann fylla á með nýju víni og eldurinn mun falla á altarið í hjarta okkar.

 

II.      Upphafið af bæn og lofgjörð dag og nótt

 

Upphafsmaðurinn af því að halda útí bæn og lofgjörð dag og nótt frammi fyrir Drottni var Davíð konungur Ísraels um 1000 árum fyrir Krist.  Hann bað Guð um leyfi fyrir því að taka sáttmálsörkina úr tjaldbúð Móse og staðsetja hana á Síonhæð í Jerúsalem inn í tjaldbúð Davíðs þar sem Drottinn var lofaður dag og nótt á vöktum af Levítunum, prestum Jehovah.

 

Davíð var á flótta undan Sál konungi áður en hann var gerður konungur Ísraels.  Davíð bjó í hellum og eyðimörkum, og hann leitaði meira að segja á náðir óvina Ísraels sem voru Filistear.  Síðasta vígi sem Davíð bjó í áður en hann varð konungur var Siklag.  Siklag stendur fyrir stað málamiðlana sem var ekki gott fyrir Davíð.  Guð elskaði hann svo mikið að hann tók stað málamiðlananna frá honum.  Stundum leitum við öryggis á stað málamiðlunnar vegna þess að við erum hrædd um að Guð bjargi okkur ekki.   En Guð elskar okkur eins og hann elskaði Davíð og hann mun brenna okkar "Siklag" til að fjarlægja allt falskt öryggi sem við treystum á.  Guð tók Siklag af Davíð með því að leyfa Amalekítum að brenna borgina og ræna hana öllu þegar Davíð og hermenn hans voru fjarstaddir.  Amalekítar rændu öllum eigum þeirra, búfénu, börnum og konum þeirra.   Það var ekki bara að borgin var farinn og allt sem þeir áttu heldur töluðu menn Davíðs um að grýta hann.  En Davíð hressti sig upp í Drottni og leitaði Guðs um hvort hann ætti að elta Amalekíta.  Guð gaf honum loforð um vísan sigur og að hann myndi endurheimta allt herfangið, konur og börn (I. Sam. 30).  Næsti kafli í fyrri Samúelsbók lýsir því hvernig Sál og synir hans láta lífið á Gilbóafjalli í orustu við Filista.  Þrem dögum eftir að Davíð endurheimtir allt herfangið af Amalekítum kemur maður til Davíðs með fréttirnar af dauða Sáls og sona hans.  Þessi maður kemur úr herbúðum Sáls með kórónu og hringinn af armlegg konungs til þess að færa Davíð.  Davíð var síðan tekinn til konungs í Hebron yfir Júda og sjö árum síðar yfir öllu Ísraelsveldi.

 

Davíð var hinn sami sem leitaði Guðs í hellunum, eyðimörkunum, Siklag eða sem konungur yfir Ísrael.  Hjarta hans þráði Guð og að gera vilja Guðs.  Hann var róttækur í tilbeiðslu sinni á Guði og því gaf hann okkur sálmana sem eru vitnisburður um að hjarta hans þráði Guð.  Davíð þráði opinberun Guð, spámannlegt orð, að sjá fegurð og dýrð Drottins, og hann elskaði að lofa Drottinn með söng, dansi og hljóðfæraleik sínum.  Hann rak burt illa anda með lofgjörð sinni, Drottinn opinberaði sig og gaf honum spámennlegt orð.  Davíð konungur reisti Ísrael upp sem stórveldi og það varð þjóðunum til vitnisburðar að Guð var með þeim.

 

Post. 15:16-18.

Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta kunnugt frá eilífð.

 

Þetta fyrirheiti Guðs um að endurreisa tjaldbúð Davíðs eða bænahús dag og nótt er að rætast fyrir framan augun á okkur.  Það sem Davíð byrjaði í Jerúsalem mun verða tekið á heimsvísu til þess að dýrð Drottins muni fylla jörðina.

 

III.      Áhersla á hjarta Guðs í dag er að byggja upp bæn og lofgjörð

 

Núna er tími Guðs fyrir það að reisa upp bænahús á heimsvísu til þess að dýrð Drottins muni snerta alla jörðina og leysa fram stærstu vakningu mannkynssögunnar.  Það hefur aldrei í mannkynsögunni verið slík áhersla í Guðsríkinu að reisa upp á heimsvísu bænahús þar sem eldurinn á að loga stöðuglega.

 

Einkenni eða andlegt DNA Bænahúsanna er hjarta fyrir einingu, lofgjörð og bæn, dag og nótt í spámannlegu flæði.  Þau þrá eld og dýrð Guðs og vilja að Guð byggi húsið.

 

Aldrei áður í mannkynssögunni hefur verið bæn og lofgjörð dag og nótt á heimsvísu. Við höfum séð bæn og lofgjörð dag og nótt rísa upp staðbundið í einu landi eða fáeinum löndum um ákveðið tímabil.  Það er aðeins á 21stu öldinni sem við höfum séð þessa köllun Guðs ganga út til þjóðanna í slíku mæli.  Nú skipta þau hundruðum þessi bænahús sem eru með bæn og lofgjörð dag og nótt, og fleiri þúsundir á heimsvísu eru að stefna að því að verða með bæn og lofgjörð dag og nótt.  Þetta er köllun sem mjög margir hafa fengið án þess að vita af öðrum bænahúsum og þau hafa sama DNA eða sömu einkenni.  Guð er að starfa og á hjarta Guðs er að reisa upp lofgjörð til nafnsins um alla jörð til þess að frelsa og leysa fólk í þeim mæli sem við höfum aldrei séð fyrr.  Guð elskar fólk til lífs og það eigum við líka að gera.

 

Bæn og lofgjörð eru öflugir lyklar að náð Guðs.  Þegar erum við í sannri bæn og lofgjörð verðum eins og góðilmur af reykelsi frammi fyrir Guði.  Það er þegar við biðjum og lofum Guð í samhljómi við orð hans.  Þá leysum við fram blessun og Guðsríkið kemur yfir okkur og landið okkar.  Það er okkar að láta reykelsið loga stöðugt með því að helga hjarta okkar orðinu og vera trúföst að biðja út orð Guðs.   

 

Drottinn hefur lofað okkur bæði í Amos níunda kafla og Postulasögunni fimmánda kafla, að endurreisa tjaldbúð Davíðs sem er bæn og lofgjörð dag og nótt.  Og með því muni hann kalla fólk inn í Guðríkið með vakningu sem hefur aldrei sést áður.  Það er eðli Guðs að allir komist til trúar á soninn Jesúm Krist og eignist eilíft líf.  Því er hann að byggja bænahús um alla jörð og ætlar að ná stærstu uppskeru mannkynssögunnar inn í Guðsríkið áður en hann kemur til baka að ná í brúði sína og stofnsetur síðan þúsund ára ríkið hér á jörðu eftir brúðkaup lambsins.

 

Því skulum við ekki undrast að Satan, óvinurinn ræðst á bænina og vill stoppa hana.  Hann ræðst á okkar gildismat á bæninni og Guði, og segir: "Vinna þín kemur með meiri árangur en að biðja til Guðs.  Það gerist ekkert nema að það verði lögð hönd á plóginn".  Hann ræðst á gildi eða mikilvægi bænahúsanna með því að segja: "Þetta bænahús er nú ekki merkilegt, frekar smátt og vex mjög hægt".  "Þið munið aldrei ná markmiðinum að ná að halda úti bæn og lofgjörð dag og nótt".  

 

Satan ræðst alltaf á bænina til þess að stoppa áhrifaríkt starf í Guðsríkinu.  Hann er stöðugt að ásaka okkur og þenur út mistök okkar til þess að láta okkur vita að við getum ekki komið inn í nærveru Guðs og segir: "Bæn ykkar breytir engu".

Því er mikilvægt að halda sig við orðið og biðja út orð Guðs.  Standa gegn Djöflinum og þá mun hann flýja frá okkur.  Þegar Guð kallar okkur til að framkvæma eitthvað verk í Guðsríkinu, mun hann ávalt gefa það sem þarf til þess að framkvæma áætlun Drottins.

 

IV.      Næstu skref bænahúsanna

 

Það sem mun gerast næst er að upp munu rísa kristnir einstaklingar sem munu gefa líf sitt Kristi á róttækan hátt.  Það munu bæði verða nýfrelsaðir og endurreistir einstaklingar sem munu verða reistir upp og fyllast af eldi Guðs og eignast nýtt vín heilags Anda inn í líf sitt.  Þau munu verða eins og Jóhannes skírari sem var spámannlegur sendiboði Drottins, og þau munu undirbúa seinni komu Krists eins og Jóhannes undirbjó fyrri komu Krists.  Sannir róttækir tilbiðendur munu rísa upp eins og María Magdalena með fórnandi tilbeiðslu þar sem þeirra eigið líf er lagt niður.  Það munu rísa upp bænarhermenn sem munu fasta og biðja dag og nótt, eins og ekkjan Anna Fanúelsdóttir sem þjónaði Guði í musterinu með föstum og bænum í spámannlegum anda.  Þetta lið mun fara á undan og ryðja veginn fyrir aðra, opna dyr sem hafa verið lokaðar og grafa brunna sem voru huldir.  Þetta eru þeir sem munu hvetja, uppörva, og hugga lýð Guðs, en samt munu þau tala gegn synd.  Þau munu reisa upp leiðtoga og byggja upp Guðsríkið í einingu.  Einnig munu þau opna hlið eða dyr inn í dýpra samfélag við Guð.  Stuðla að því að leysa fólk og leiða í hina háleitu köllun sem er að vaxa upp til höfuðsins í Kristi og verða brúður Krists.  Þau munu vinna að framgangi í Guðsríkinu og sækja fram sem her Guðs til að taka öll sjö áhrifafjöll þjóðfélagsins.  Eins og her sem hertekur land verður innrás inn í þjóðfélagið með kærleika Krists og kraft Guðs. 

 

Næstu skref okkar:

- Virða tíma Guðs eins og stefnumót eða fund við einhvern mikilvægan.

- Bænahúsið í forgang yfir aðra hluti, skuldbinda sig til að taka bænastundir.

- Biðja til þess að finna köllun sína og næstu skref.

- Fórna sér og forgangsraða, gefast meira bæði fjárhagslega og tímanlega.

- Biðja út orðið og fasta, og Drottinn mun gefa gleði og opinberun.

- Læra að vera logandi reykelsi og sem prestur Drottins með konunglegt vald.

 

Drottinn blessi þig og gefi þér náð til þess að lifa sem Guði þóknanleg fórn.

  Bænahúsið | Stangarhylur 7 | 110 Reykjavík | baenahusid@baenahusid.is  
  Banki: 0116-05-063995 | kt. 460406-1370