Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk eru meiri en hin fyrri.  Opinberunarbókin 2:19 


Hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir11.05.2014 22:29

Bæn, beiðni og þakkargjörð

Bæn, beiðni og þakkargjörð
4. maí. 2014; Kolbeinn Sigurðsson


I.                  Hvað er mikilvægast í Guðríkinu?

 

Einlæg bæn til Drottins hefur alltaf gert gæfu muninn í Guðsríkinu gegnum aldirnar.  Eftir tíu daga bænastund fæddist frumkirkjan í loftstofunni í Jerúsalem.  Þegar Jesús ávítaði sölumenn og víxlarana í musterinu sagði hann: "Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir".   Bænahús er samsett úr tveimur orðum sem eru: Bayith og þýðir hús eða dvalarstaður fyrir fjölskyldu, en orðið yfir bæn er Tephillah og útleggst sem áköf sigrandi bæn og lofgjörð.  Bænahús er sem sagt þar sem fjölskylda Guðs kemur saman í bæn og lofgjörð.

 

Einlæg bæn sem er beðin í trú gerir kraftaverk og eins og við frelsumst, læknumst og leysumst fyrir bæn eins munum við vaxa og tengjast hjarta Guðs fyrir bæn.

 

Post. 2:42

Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.

 

Frumkirkjan hafði fjögur atriði í hávegum í formum sínum og þau voru:

1. Uppfræðslu postulanna á ritiningunum - 66 bækur - Ljósastika Guðs.

Hvaða skilyrði þurfu bækur að uppfylla til þess að vera hluti af ritningunni:

      I.      Postulaleg skrif sem koma frá postula og samþykkt af postulum.

             II.      Sönn skrif - voru sannleikur en ekki ævintýri.

            III.      Forn skrif sem hafa verið notuð frá frumkirkjunni (1. öld).

           IV.      Samþykkt af kirkjunni og verið notuð af flestum kristnum.

          V.      Nákvæm skrif - Er í samhljómi við kenningar kirkjunnar og aðrar ritningar.

2. Samfélagið - Nýtt boðorð gef ég ykkur; "Elskið hvern annan"

3. Brotning brauðsins - Blóð og líkami Krists, sáttmáli til minningar dauða, upprisu og endurkomu Drottins.

4. Bænirnar - Þetta gríska orð sem notað er fyrir bænirnar er "pros-yoo-khay'" og það þýðir bæn og lofgjörð, bæn til Guðs í einlægni og grátbeiðni. Það eru mismunandi bænir; spámannlegar, konunglegar yfirlýsingarbænir, grátbeiðnir, postulabænir, jóðsóttarbænir, innrásarbænir o.sv.frv. en allar bænir eigum við að biðja í Jesú nafni.  En það þýðir að biðja samkvæmt eðli og vilja Drottins, og slíkar bænir eru alltaf í samhljómi við ritningarnar.

 

Síðan var fimmta atriðið sem gerði frumkirkjuna að söfnuði Krists og það var heilagur Andi og eldur Guðs sem leiddi hinar formlegu athafnir eftir fullkomnum vilja Guðs hverju sinni og gaf því lífið í hin dauðu form.

 

Bæn er fyrst og fremmst tenging á hjarta okkar við hjarta Guðs.  Bænin er samfélag sem felst í því að tjá sig með öllum skilningarvitum og hlusta eða meðtaka með öllum skilningarvitum. 

 

Í fyrsta Þess. 5:17 segir: "Biðjið án afláts".  Guð er andi og því þurfum við að virkja anda okkar til að vera í bæn dag og nótt.

 

Guð er andi og hann talar öll heimsins tungumál en þegar hann talar til okkar kýs hann að tala andlegt tungumál til okkar inn í anda okkar.  Opinberun Hans ristir dýpra en bara í hugann. Hún hefur áhrif á alla okkar veru - huga, hjarta, ásetning og ástríður. 

 

Hús Guðs á fyrst og fremmst að vera bænahús, þar sem við tilbiðjum Hann í Anda og Sannleika.  Anna spákona var 84 ára ekkja þegar Jesús fæddist sem var í musterinu dag og nótt, fastandi og biðjandi.  Hún og Símeon (Lúk. 2:25-40) fengu að sjá Jesú og þau skildu að hann var hinn sanni Messías.  Símeon var réttlátur og guðrækinn og Heilagur Andi var yfir honum.  Heilagur Andi leiddi hann inn í musterið þegar Jesús var færður þangað af foreldrum sínum og Símeon fékk að blessa Jesú með spámannlegri bæn.

 

 

II.               Hvað hefur leyst borgir og þjóðir gegnum aldirnar?

 

I. Tím. 2:1-4.

Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, 2  fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. 3  Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, 4  sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

 

Drottinn vill frelsa alla menn.  Það eru hinir kristnu sem eiga að miðla Kristi með kærleika til mannkynsins.  Hvernig eigum við að leysa Ísland?  Oft þarf ekki nema smá brot þjóðar til að breyta öllu lífsviðhorfi hjá heilli þjóð eða jafnvel á heimsvísu.  Jafnvel ein manneskja getur komið bolta af stað sem leysir marga og jafnvel heila þjóð, sbr. Ester - bæn og fasta í þrjá daga. 

 

Bæn og lofgjörð hefur alltaf verið lykillinn af vakningum og til að leysa fólk gegnum aldirnar, en síðan kemur trúboðið.  Fyrst kemur bænin eða samtalið við Guð þar sem gefur hann okkur sína áætlun.  Við þurfum að fá réttan tíma, réttan stað og rétta áætlun eða hvernig eigum við að gera þetta verk fyrir Drottinn.

 

Bæn okkar á að biðja um að vilji Guðs verði á jörðinni eins og það er á himni sbr. Faðir vorið.  Bænin sem Drottinn kenndi lærisveinum sínum byrjar og endar á lofgjörð til föðurins.  Á bak við orðin í ritningunum er rödd Guðs og vilji Guðs sem hefur öflugan sköpunarkraft sem getur breytt öllu í lífum okkar og annara.  Biðjum niður smurningu Davíðs yfir þessa kynslóð, því við þurfum bæna- og lofgjörðarsmurninguna sem hann átti.  Þegar við lyftum upp nafni (eðli) Drottins mun fólk byrja að frelsast. 

 

Post. 15:16-18. 

Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs.  Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta kunnugt frá eilífð.

 

Hvað kallar fram Bænahúsið eða tjaldbúð Davíðs?

Nýtt form eða nýr vínbelgur kallar á nýtt vín.  Við erum á þriðja degi og í brúðkaupinu í Kana kom Jesús með nýtt betra vín á þriðja degi.   Kraftur kemur í trúboðið og vegna nærveru Guðs mun hið spámannlega opinbera tímana fyrir okkur, hve stutt er í komu hans.  Við munum sjá stærstu uppskeru eða endatíma vakningu.  Samfara mun veldi óvinarins eflast, aðskilnaður og myrkrið magnast.   Þrengingin á endatímunum er slík að mannkynið hefur ekki staðið frammi fyrir slíkri ógn og það verður fátt um svör. Heimbyggðin mun halda að nú sé allt komið í svo gott horf og jafnvægi, það er friður og engin hætta.   Þegar partíið stendur sem hæst mun dómur Guðs koma eins og  þruma úr heiðskíru lofti. 

 

Þegar lofsöngur heimsins mun fölna og þagna vegna þess að þrengingar munu dynja yfir heimsbyggðina, þá mun heyrast lofsöngur frá kirkjunum og bænahúsunum sem hafa tengingu við hjarta Guðs.  Þá munu þjóðirnar sjá friðin og gleðina í kirkju Krists og margir munu snúa sér til Drottins vegna þess að allt það sem það hefur treyst á er skekið og er svo fallvalt.  En hin sanna kirkja Guðs er á fjallinu sem heitir Kristur og hún haggast ekki, heldur mun hljóma lofgjörð til Drottins.

 

Fjall Drottins mun rísa á síðustu dögum samkv. Jesaja 2:2-4 (Míka 4:1-2).

2Það skal verða á komandi dögum að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki, það ber yfir hæstu fjallstinda og gnæfir yfir allar hæðir.  Þangað munu allar þjóðir streyma 3og margir lýðir koma og segja: "Komið, göngum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs svo að hann vísi oss vegu sína og vér getum gengið brautir hans."  Því að fyrirmæli koma frá Síon, orð Drottins frá Jerúsalem.

 

 

III.           Bæn í anda og sannleika

 

Síðasta bæn ritninganna er í Opinberunnarbókinni í kafla 22 og versi 20, ...Kom þú, Drottinn Jesús!

 

"Kom þú" er gríska orðið "er'-khom-ahee" sem þýðir eftirfarandi:

1.     Að koma

2.     Að koma frá einum stað til annars

3.     Að birtast eða opinberast

4.     Sjást opinberlega

5.     Verða þekktur

6.     Rísa upp

7.     Að fara eða fylgja hinum eina sanna.

 

Margir hafa sett þessa bæn aðeins í samhengi við endurkomu Drottins Jesú, en sönn merking hennar er líka að biðja það út að Jesús verði þekktur á meðal okkar og að hann opinberist í dag fyrir okkur.  Það sem er merkingin fyrir þessa bæn er að andinn og brúðurinn biðja að við hinir kristnu mætum koma að orði lífsins til að skilja og þekkja hver Kristur er í raun.  Fá opinberun um eðli Krists og fá löngun til að fylgja hinum eina sanna Guði allt þar til hann kemur aftur að sækja brúði sína.  Það er að við mættum þekkja hann, en ekki aðeins eiga þekkingu á honum.

 

Opinb. 22:16-21.

Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan."  17  Og andinn og brúðurin segja: "Kom þú!" Og sá sem heyrir segi: "Kom þú!" Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn. 18  Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók.  19  Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók. 20  Sá sem þetta vottar segir: "Já, ég kem skjótt." Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!  21  Náðin Drottins Jesú sé með öllum.

 

Náð og Andi Drottins komi því til leiðar að við séum tilbúin þegar lúður Drottins hljómar. 

  Bænahúsið | Stangarhylur 7 | 110 Reykjavík | baenahusid@baenahusid.is  
  Banki: 0116-05-063995 | kt. 460406-1370