Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk eru meiri en hin fyrri.  Opinberunarbókin 2:19 


Hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir24.11.2013 20:50

Sáttmáli Guðs

Sáttmáli Guðs

Kolbeinn Sigurðsson, predikun 24. nóvember 2013

 

      I.      Sáttmálar almennt

Í gegnum mannkynssöguna hafa menn gert sáttmála sín á milli til að tryggja það að menn muni standa við orð sín og fylgja samkomulagi sín á milli.  Þessir sáttmálar voru til að tryggja frið, koma á viðskiptum eða bandalagi milli Guðs og manna, og milli fjölskyldna, þjóðflokka eða þjóða.   Sáttmálar voru fyrst oft innsiglaðir með blóði (I. Mós. 15:8-18), handsali (Esek. 17:8), með því að skiptast á salti (IV. Mós. 18:19), skóm (Rut. 4:8) eða öðrum eignum, en síðar urðu þeir innsiglaðir með undirskrift á skjölum.

 

  Hebreska orðið sem Ritningin notar yfir sáttmála er berith og merkir:

a.     Bindandi samningur eða samkomulag milli tveggja aðila, annað hvort einhliða eða tvíhliða. Getur verið loforð, eiður, sáttmáli, bandalag, samningur, fyrirkomulag, samkomulag o.fl. sem getur gert kröfur um skyldur, ábyrgð eða hlýðni.

b.     Að gefa fæðu, velja, að búa til, hæfur til að skera (skorið burt stykki af holdi við sáttmálagerð) skapa, móta, senda, korn eða hveiti, að skýra, rannsaka, hreinsa og fága.

 

Dæmi um sáttmála í Ritningunni:

a.     Menn gerðu einingarsáttmála og friðarsáttmála sín á milli.

Y Abraham og Abímelek - 7 lömb í sáttmálagjöf (I. Mós. 21:22-32).

Y Jakob og Laban - hlaða minningarvörðu fyrir einingarsáttmála sín á milli (I. Mós. 31:44-54).

Y Davíð og Jónatan - fóstbræðrasáttmáli, Jónatan gaf skikkju sína, herklæði sín, sverð, boga og belti (I Sam. 18:3-4, 20:8, 23:18).

Y Hjónabandssáttmálinn - Maður og kona verða sem eitt í hjónabandinu (I. Mós. 2:23-25; Mal. 2:14; Matt. 19:4-12)

 

b.    Sáttmálar milli Guðs og manna.

Y Eden sáttmálinn (I. Mós. 1:28-30; 2:15-17).

Y Sáttmálinn við Adam - Lausn undan bölvun dauðans fyrir sæði konunnar, fyrirheiti um Messías sem lausnara (I. Mós. 3:14-19).

Y Sáttmálinn við Nóa - Aldrei aftur dómur með flóði yfir mannkynið.  Regnbogatákn (I. Mós. 9:9-17). 

Y Sáttmálinn við Abraham - Fyrirheit um land og faðir margra þjóða.  Umskurnin til tákns (I. Mós. 15:8-18; 17:1-14).

Y Sáttmáli við Móses og Ísraelsþjóðina:

1.     Aðskilnaðarsáttmálinn í Egyptalandi. Páskar; blóð lambsins frelsar (II. Mós. 20; 24:4-8; 31).  

2.     Lögmáls- og hvíldardagssáttmálinn við Hóreb á Sínaífjalli.  (II. Mós. 20; 24:4-8; 31).  

3.     Landsáttmálinn í Móabslandi (V. Mós. 29 & 30).

Y Sáttmálinn við Davíð - Eilífur konungdómur (II. Sam. 7:12-17, 23:5; Sálm. 89:3,28).  

 

c.      Loforð um "Nýjan sáttmála" - Brauðsbrotningin til minningar og tákns.

"Ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og við Júda hús" (Jer. 31:31-34).

 

   II.      Mismunandi sáttmálar

Það voru notuð ýmis nöfn fyrir hina mismunandi gerðir af sáttmálum.  Það var einingarsáttmálinn, aðskilnaðarsáttmálinn, festarsáttmálinn, hjúskapar-sáttmálinn, handsáttmálinn, saltsáttmálinn, skósáttmálinn, friðarsáttmálinn og blóðsáttmálinn.

 

Það eru tvær megin tegundir af sáttmálum í Ritningunni: skilyrtir og óskilyrtir sáttmálar. Það er mikilvægt að greina á milli þessara sáttmála til þess að hafa skýra mynd af því hvað Biblían kennir.

 

1. Skilyrtir sáttmálar

Skilyrtur sáttmáli er tvíhliða sáttmála þar sem tillaga Guðs til mannsins einkennist af eftirfarandi forskrift: Ef þú vilt, þá mun ég.  Þar sem Guð lofar að veita sérstaka blessun ef maður uppfyllir ákveðin skilyrði sem eru í sáttmálanum. Ef  maðurinn bregst eða óhlýðnast er niðurstaðan refsing eða bölvun.  Það eru viðbrögð manna við sáttmálanum sem færa þeim annað hvort blessun eða bölvun. Blessanir eru tryggðar með hlýðni og maður verður að uppfylla skilyrði hans til þess að Guð muni uppfylla blessanir eða fyrirheiti sín.

 

Þar sem samband Guðs við manninn byggist mikið á sáttmálum er mjög mikilvægt að skilja Ritningarnar til að þekkja hina átta sáttmála Guðs.  Tveir af hinum átta sáttmálum eru skilyrtir sáttmálar: Eden sáttmáli og Móse sáttmáli.

 

2. Óskilyrtir sáttmálar

Skilyrðislaus sáttmáli er einhliða sáttmáli og er eingöngu Guðs fullvalda athöfn. Þar sem hann ábyrgist skilyrðislaust sjálfur að gjöra ákveðnar blessanir og skilyrði fyrir sáttmála fólk sitt. Þessir sáttmálar einkennast af forskriftinni: Ég vil, sem lýsir ákvörðun Guðs að gera eins og hann lofar.  Blessanir eru tryggðar með náð Guðs. Guð lýsir því hátíðlega yfir í sáttmálanum að hann einn uppfylli loforð og fyrirheit sín með þakklæti og kærleika.

 

Sex af þeim átta sáttmálum Guðs eru skilyrðislausir: Sáttmáli Adams, sáttmáli Nóa, sáttmáli Abrahams, Land sáttmálinn, sáttmáli Davíðs, og hinn nýi sáttmáli.

 

III.      Sáttmálar Guðs við Ísrael og þjóðirnar

Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, eða Guð Ísraels er sannarlega Sáttmálaguð, en alls hefur Drottinn gert átta sáttmála við Ísrael og við mannkynið í heild.

 

Jós. 9:46

46Þegar allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemturni, heyrðu þetta gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmálaguðs.

 

Sáttmálar Guðs við mannkynið:  

1.     Eden sáttmálinn (I. Mós. 1:28-30; 2:15-17).

2.     Sáttmáli Adams  (I. Mós. 3:14-19).        

3.     Sáttmáli Nóa (I. Mós. 9:9-17). 

4.     Sáttmáli Abraham (I. Mós. 15:8-19; 17:1-14).

5.     Sáttmáli Móse (II. Mós.12; 13; 20; 24:4-8; 31).

6.     Landsáttmálinn (I. Mós. 15:18-19; V. Mós. 29 & 30).

7.     Sáttmáli Davíðs (II. Sam. 17:12-17).

8.     Nýi sáttmálinn (Matt. 26:28; I. Kor. 11:25).

 

Fimm af þessum átta sáttmálum voru gerðir eingöngu við Ísrael á meðan hinir voru fyrir mannkynið í heild sinni.  Aðeins einn af hinum fimm sáttmálum sem gerðir voru við Ísrael er skilyrtur: Það er sáttmáli Móses.  Hinir fjóru sáttmálarnir við Ísrael eru skilyrðislausir: Abrahams sáttmáli, Land sáttmálinn, sáttmáli Davíðs, og hinn nýi sáttmáli.

 

Eðli og eiginleikar fyrir óskilyrtu sáttmálana við Ísrael:

1)    Bókstaflegir sáttmálar og innihald þeirra verður því að túlka bókstaflega.

2)    Sáttmálarnir sem Guð hefur gert við Ísrael eru eilífir og eru ekki á nokkurn hátt takmarkaðir eða einhvern tíma breytanlegir og ógildir.

3)    Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á að þetta eru óskilyrtir sáttmálar sem verða ekki afnumdir vegna óhlýðni Ísraels, því sáttmálarnir eru skilyrðislausir og algerlega háðir Guði að uppfylla þá.  Því er að vænta fullkomnar uppfyllingu á þeim.

4)    Þessir sáttmálar voru gerðar með við ákveðið fólk, þ. e. Ísraelsþjóðina. Páll segir í Rómverjabréfinu 9 kafla og í versi 4 og 5: Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. 5Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.

 

Efesusbréfið 2:11-12

11Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna. 12Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.

 

Þetta bendir greinilega á að þessi sáttmálar voru gerðir af mikilli alvöru við gyðingana og eru eign Ísraels.  Fimm af átta sáttmálum Biblíunnar tilheyra Ísraelsmönnum og samkvæmt versunum hér að ofan voru heiðingjar útilokaðir frá sáttmálunum.  En í gegnum Jesúm Krist eru heiðingjarnir græddir við eða arfleiddir inn í sáttmálana og fyrirheit Guðs.

 

Hver er meginreglan um tímasetningu á uppfyllingu sáttmálanna?

Sáttmáli getur verið undirritaður og innsiglaður, en það þýðir ekki að öll ákvæði hans komi strax til framkvæmda.  Í raun eru þrír mismunandi hlutir sem gerast þegar sáttmáli er innsiglaður:

1.     Sumt hefur strax áhrif og kemur til uppfyllingar strax.

2.     Sum ákvæði taka gildi í náinni framtíð sem getur verið eftir tuttugu og fimm ár eða eftir fimm hundruð ár.

3.     Sum ákvæði taka gildi aðeins í fjarlægri spámannlegri framtíð, og hefur jafnvel ekki verið uppfyllt í dag.

 

IV.      Nýr sáttmáli Guðs

Í raun er sáttmálum Guðs skipt niður í gamla og nýja sáttmála.  Ritningarnar skiptast í gamla og nýja testamenti, en orðið testamenti þýðir sáttmáli.  Jesús Kristur er meðalgangari sáttmálanna og tengir þá saman með blóði sínu.

 

Jerm. 31:31-34.

31Sjá, þeir dagar munu koma segir Drottinn að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, 32ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra segir Drottinn.
33En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.  34Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: Lærið að þekkja Drottin, því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.

 

Nýi sáttmálinn er eilífur sáttmáli, fyrst við Ísraels hús og við Júda hús síðan eru heiðingjarnir græddir inn í þennan sáttmála og gerður er friðarsáttmáli milli gyðinga og heiðingja sem mun vera eilífur sáttmáli (Esek. 37:26; Ef. 2:11-16).

 

Blóð Messías eða Krists er grundvöllur hjálpræðisins í nýja sáttmálanum, og það var úthellt fyrir allt mannkyn á krossinum. Blóð Messíasar var fullgilt til að undirrita og innsigla nýja sáttmálann (Heb. 8:1-13).  Ákvæði nýja sáttmálans er ekki hægt að uppfylla í gegnum kirkjuna, heldur í gegnum Ísrael.  Það er satt að sáttmálinn hefur ekki nú verið uppfylltur við Ísrael, en það þýðir ekki að hann verði því uppfylltur með kirkjunni.  Kirkjan hefur orðið hluttakandi í andlegri blessun gyðinga, en kirkjan tekur ekki yfir sáttmála gyðinga. Kirkjan er hluttakandi hinna andlegu blessanna og loforða, en ekki hinna efnislegu blessunar sem gyðingar eiga (Róm. 11).

Samkvæmt Jeremía var sáttmálinn gerður við Ísrael, en ekki við kirkjuna. Engu að síður þá kemur fram í Ritningunum að nýi sáttmáli tengir kirkjuna eða heiðingjana inn í sáttmála gyðinga. (Matt. 26:28; Ef. 2:11-16; Heb. 8:6-13; 9:15; 10:16,29; 12:24; 13:20).  Vinsælasta lausnin í sögu kirkjunnar hefur verið staðgengils- eða tilfærsluguðfræði, sem kennir að kirkjan hafi yfirtekið stöðu Ísrael í sáttmálum Guðs.

 

Staðgengilsguðfræði: Kennir að kirkjan er hið raunverulega Ísrael, að sáttmáls fyrirheit Guðs í Ritningunni tilheyri nú kirkjunni en ekki gyðingum og Ísrael. Hin nýja himneska Jerúsalem kemur í staðin fyrir Jerúsalem.

 

Sumir kenna að það hafi verið gerðir tveir nýir sáttmálar, einn við kirkjuna og einn við Ísrael. Þessi skoðun er alls ekki studd með kenningum Ritningarinnar.  Þetta er skýrt í Efesusbréfinu öðrum kafla og í Rómverjabréfinu ellefta kafla.

 

Róm. 11:17-27.

17En þótt nokkrar af greinunum hafi verið brotnar af, og hafir þú, sem ert villiolíuviður, verið græddur inn á meðal þeirra og sért orðinn hluttakandi með þeim í rótarsafa olíuviðarins, 18þá stær þig ekki gegn greinunum. Ef þú stærir þig, þá vit, að þú berð ekki rótina, heldur rótin þig.  19Þú munt þá segja: Greinarnar voru brotnar af, til þess að ég yrði græddur við.  20Rétt er það. Fyrir sakir vantrúarinnar voru þær brotnar af, en vegna trúarinnar stendur þú. Hreyktu þér ekki upp, heldur óttast þú.  21Því að hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrlegu greinum, þá mun hann ekki heldur þyrma þér.  22"Sjá því gæsku Guðs og strangleika, strangleika við þá, sem fallnir eru, en gæsku Guðs við þig, ef þú stendur stöðugur í gæskunni; annars verður þú einnig af höggvinn."  23En hinir munu og verða græddir við, ef þeir halda ekki áfram í vantrúnni, því að megnugur er Guð þess að græða þá aftur við.  24Þú varst höggvinn af þeim olíuviði, sem eftir eðli sínu var villiviður, og ert gegn eðli náttúrunnar græddur við ræktaðan olíuvið. Hve miklu fremur munu þá þessar náttúrlegu greinar verða græddar við eigin olíuvið?  25Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn.  26Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob.
27Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar ég tek burt syndir þeirra.

 

Tengsl kirkjunnar við nýja sáttmálann er það sama og tengsl kirkjunnar við Abrahams sáttmálann, Land sáttmálann og Davíðs sáttmálann. Allar andlegar blessanir eru fyrir trúaða í Messías, hvort sem þeir eru gyðingar eða heiðingjar. Sumt hefur verið lofað eingöngu til Ísraels, og kirkjan fær að  njóta andlegu blessana í þessum sáttmálum, en ekki hina efnilegu kosta.  Þess vegna er baráttan svo mikil um Ísrael og óvinurinn vill eyða gyðingum og þar með deyr nýi sáttmáli Guðs með þeim.  Því  er boð Guðs um að blessa Ísrael okkar blessun líka.  Grundvöllur hins nýja sáttmála er náð Guðs og þessi sáttmáli er skilyrðislaus og er í gildi til eilífðar.

 

   V.      Brauðsbrotningin

 

Brauðsbrotningin er athöfn þar sem kristnir menn minnast dauða og upprisu Jesú Krists.  Brauðsbrotning er fólgin í því að neytt er brauðs og vín sem er ávöxtur vínviðarins.  Samkvæmt Ritningunum táknar vínið blóð Krists og brauðið táknar líkama Krists. Við þessa athöfn er verið að minnast síðustu kvöldmáltíðar Jesú og lærisveina hans áður en Jesús var krossfestur. Það eina sem lærisveinarnir þurftu að gera á skírdagskvöld var að taka á móti brauðinu og víninu sem Jesús gaf þeim. Taka og eta af, þar sem orða og skilnings var ekki krafist.  Í gegnum það að borða og drekka saman fáum við hlutdeild í guðlegum leyndardómi sem verður ekki að fullu útskýrður með orðum.

 

Matt. 26:26-29.

Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: "Takið og etið, þetta er líkami minn." Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: "Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns."


Í þessum versum vísar Jesús til þess, að brauðið er líkami Hans og vínið er blóð Hans. Fyrir trú og smurningu Heilags Anda meðtökum við líkama Hans í brauðinu og blóð Hans í víninu. Brauðsbrotningin er í sannleika minningarmáltíð, en hún er mun meira.

 

I. Kor. 11:23-28.

Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu." Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu." Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.

Í þessum versum kemur fram, að það var Jesús sjálfur sem stofnsetti þessa athöfn, áður en hann gekk inn í dauðann fyrir syndugt mannkyn. Brauðsbrotningin er gjöf Guðs og hefur verulegt vægi í andlegu lífi til að minnast dauða Drottins og boða endurkomu Hans.


Þeir sem koma að borði Drottins í brauðsbrotningunni eiga að skoða hjarta sitt með iðrun í huga og biðja um hreinsun í blóði lambsins.  Jesús er brotið brauð fyrir okkur og hinn úthellti ávöxtur vínviðarins. Í brauðsbrotningunni gefur Drottinn okkur sérstaka hlutdeild í líkama sínum og blóði.  


Ritningarnar legga mikla áherslu á einingu í þessari athöfn og því neytum við saman brauðsins og vínsins.  Í dauða Jesú Krists var brúað bilið milli manna og Guðs, sem syndin hafði skapað. Guð þráir einingu milli hinna kristnu og það mun verða eitt af táknum endatímanna.   Með því að vera hluttakandi í brauðsbrotningunni gerum við viljayfirlýsingu um að við viljum lifa í og vera undir hinum dýrðlega nýja sáttmála Guðs.  Sáttmáli sem lifir og varir um eilífð.Drottinn gefi yður ríkalega náð til að lifa í sáttmála Guðs.

 

  Bænahúsið | Stangarhylur 7 | 110 Reykjavík | baenahusid@baenahusid.is  
  Banki: 0116-05-063995 | kt. 460406-1370